2

Main content

main

Námskeiðsáætlun 2025 - 2026

Námskeiðsáætlun Landskerfis bókasafna fyrir veturinn 2025-2026 er tilbúin.

Námskeiðsáætlunin er í megindráttum fjórskipt: Undirstöðunámskeið, námskeið í sérhæfðari verkþáttum, ítarnámskeið fyrir starfsfólk bókasafnanna sem að þessu sinni kallast „Stefnumót við Gegni“ og „Stefnumót við grunnskólana“ og að lokum örnámskeið í afmörkuðum verkþáttum þar sem kafað verður dýpra í kerfið. 

Öll námskeiðin verða fjarnámskeið nema námskeiðið í bókfræðiskráningu sem er þriggja daga námskeið og verður haldið í húsakynnum Landskerfis bókasafna. Ekki stendur til að leggja land undir fót til að heimsækja safnahópa á landsbyggðinni en hinsvegar erum við reiðubúin til að bjóða upp á sértæk eða almenn námskeið fyrir ákveðna hópa ef þess er óskað.

Áætlunina má nálgast hér

Nánari lýsing:

Undirstöðunámskeið
Í  september verður farið í grunnþætti kerfisins með þremur undirstöðunámskeiðum fyrir nýja starfsmenn. Námskeiðin henta einnig til upprifjunar.

  1. Grunnkynning - Forsíða og leit
  2. Ný aðföng á safni
  3. Útlán og lánþegaþjónustur

Athugið að „Grunnkynning – forsíða og leit“ er skyldunámskeið fyrir alla sem nota kerfið. Það fer svo eftir verkefnum starfsmanna hvort nauðsynlegt sé að taka bæði „Ný aðföng á safni“ og/eða „Útlán og lánþegaþjónustur“.

Sérhæfðari verkþættir
Fyrir sérhæfðari verkþætti verður námskeið í bókfræðiskráningu í október, tímaritahaldi í desember og síðan verður boðið upp á námskeið í millisafnalánum og að fara dýpra í aðföngin eftir áramót.

Ítarnámskeið
Til að Gegnir og tengd kerfi nýtist sem best í daglegu amstri bókasafnanna er nauðsynlegt að ganga í takt við kerfin hverju sinni. Markmiðið með þessum námskeiðum er að kynna nýjungar og breytingar ásamt því að hnykkja á hvernig réttir vinnuferlar og réttar stillingar stuðla að betra og léttara verklagi. Ítarnámskeiðunum er skipt í tvennt. Annars vegar námskeið / kynning sem kallast Stefnumót við Gegni og hins vegar sérhæfðara námskeið fyrir starfsfólk bókasafna í grunnskólum sem kallast Gegnir – Stefnumót við grunnskóla

  • Stefnumót við Gegni
    Eins og fyrr sagði er markmið námskeiðsins að hnykkja á betra verklagi og miðla upplýsingum um breytingar og nýjungar. 
  • Gegnir - Stefnumót við grunnskóla
    Markmiðið með þessu námskeiði er fyrst og fremst að hnykkja á ýmsum atriðum sem gætu auðveldað skólasöfnunum vinnuna í daglegu amstri ásamt fréttum um breytingar og nýjungar í kerfunum. Farið verður dýpra í grunnatriði sem tengjast starfinu á grunnskólasöfnum en námskeiðið verður mótað í samráði við starfsfólk grunnskólabókasafna.

Örnámskeið
Boðið verður upp á nokkur örnámskeið þar sem farið verður dýpra í kerfið og afmarkaðir verkþættir krufnir. Hér má nefna örnámskeið um Rafbókasafnið, ítarleit og að breyta mörgum eintökum með Excel. Væntanlega bætast við fleiri örnámskeið byggt á breytingum í kerfunum og einnig óskum safnanna.

 

Skráning á námskeið fer fram á vef Landskerfis bókasafna

Í skráningarforminu er nauðsynlegt að velja bæði dagsetningu og tíma, þó svo að aðeins sé um einn dag og tíma að ræða, annars koma villuboð og námskeiðsskráningin misferst.
Gangið úr skugga um að staðfestingarpóstur berist.

Athugið að dagsetningar eru settar fram með fyrirvara um breytingar og einnig er áskilinn réttur til að fella niður námskeið ef ekki næst næg þátttaka.
Öll námskeið eru gjaldfrjáls nema námskeið í bókfræðiskráningu.

 

 

horizontal

fblikebutton_dynamic_block