2

Main content

main

Rafbókasafnið nú í öllum almenningsbókasöfnum á Íslandi

Rafbókasafnið nú fyrir alla landsmenn

Almenningsbókasöfn um allt land bjóða nú lánþegum sínum aðgang að Rafbókasafninu.
 
Rafbókasafnið byggir á OverDrive rafbókaveitunni sem býður bókasöfnum um allan heim samskonar þjónustu. Rafbókasafnið var opnað lánþegum Borgarbókasafnsins þann 30. janúar 2017 og 13 stórum almenningsbókasöfnum þann 1. júní sl. Nú bætast 48 almenningsbókasöfn í Rafbókasafnssamlagið og eru aðildarsöfnin því orðin 62.
 
Í Rafbókasafninu eru nú yfir 3.000 rafbækur og rúmlega 600 hljóðbækur. Meginhluti efnisins er á ensku og í formi rafbóka, en hlutur hljóðbóka fer ört vaxandi, enda njóta þær sérlegra vinsælda. Þetta þýðir að bókakostur nýju aðildarsafnanna stækkar um tæplega 4.000 bækur.
 
Vonir standa til að á þessu ári muni íslenskar rafbækur bætast í safnið. Líkt og á öðrum bókasöfnum er safnkosturinn fjölbreyttur, en þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt efni og klassík.
 
Raf- og hljóðbækurnar má lesa og hlusta á, ýmist á vef safnsins, eða í snjalltækjum með öppunum Overdrive eða Libby. Þannig geta lesendur notað hvert tækifæri til að lesa sínar bækur, í síma eða á spjaldtölvu (öðrum en Kindle), hvar sem er og hvenær sem er. Í raun þýðir þetta að lesendur hafa heilt bókasafn í vasanum. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn.
 
Allar nánari upplýsingar um Rafbókasafnið fær almenningur á sínu almenningsbókasafni og vefslóðin er http://rafbokasafnid.is
 
Gleðilega jólalesningu!
 

horizontal

fblikebutton_dynamic_block