Main content
Fréttir
main
Í dag lauk fyrstu afritun gagna frá Fengssöfnunum í Nýja-Gegni. Á næstu dögum byrjar hópur bókasafnsfræðinga að gáta gögnin. Þó að hópurinn eigi mikið verk fyrir höndum, er það mikilvægur áfangi að yfirfærsluvinna fyrir þennan stóra hóp safna skuli nú vera hafin.
Aðalfundur Landskerfis bókasafna hf. fyrir árið 2003 var haldinn föstudaginn 20. júní. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf. Við stjórnarkjör urðu talsverð mannaskipti, því þeir Arnór Guðmundsson, Jónmundur Guðmarsson og Kristján Svanbergsson drógu sig í hlé, en í þeirra stað voru kosin Anna Torfadóttir borgarbókavörður, Hörður Sigurgestsson, stjórnarformaður Landsbókasafns-Háskólabókasafns og Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður. Karl Guðmundsson situr áfram í stjórninni og varamenn eru þeir sömu og fyrr. Þeim Arnóri,...
Nýlega hafa birst stuttir pistlar í fjölmiðlum um nýja Gegni. Þar er m.a. um að ræða pistil í nýjasta hefti Fregna og grein í Morgunblaðinu. Einnig var sagt frá kerfinu í Ríkissjónvarpinu og birt stutt frétt í Morgunblaðinu um opnun þess. Einnig má nefna að Landskerfi bókasafna hefur látið gera lítinn bækling um kerfið með einföldum leiðbeiningum um notkun þess, og hefur tæplega 2000 eintökum verið dreift til bókasafna.
Mánudaginn 19. maí síðastliðinn opnaði Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra Gegni með formlegum hætti í Þjóðarbókhlöðunni. Einnig ávörpuðu Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður og Jónmundur Guðmarsson stjórnarformaður Landskerfis bókasafna hf. gesti, þökkuðu starfsmönnum þeirra framlag og fögnuðu þessum stóra áfanga.
Síðdegis í dag mun menntamálaráðherra opna nýja Gegni formlega í Þjóðarbókhlöðunni, að viðstöddum fulltrúum samstarfsaðila og eigenda Landskerfis bókasafna. Vefslóð nýja kerfisins er gegnir.is. Sjá nánar fréttatilkynningu um málið.
Í dag opnaði Landskerfi bókasafna aðgangsstýrðan þjónustuvef fyrir starfsmenn aðildarsafna sinna. Þar er að finna upplýsingar sem ætlaðar eru starfsfólki safna sem notar nýja Gegni og er hægt að fá notandaauðkenni fyrir þetta vefsvæði hjá starfsmönnum Landskerfisins.
Í vikunni 12.-16. maí verða haldin námskeið um útlán og geta bókaverðir skráð sig á þau á skráningarsíðu vefjarins. Þá má benda á nýtt námsefni á skyggnum sem gagnast getur öllu fagfólki sem áhuga hefur á bókasafnskerfinu.
Nú bendir allt til að nýi Gegnir verði opnaður 19. maí næstkomandi. Af þeim sökum þarf að loka fyrir skráningu í gamla Gegni í tíu daga, sem þýðir að ný rit verða ekki skráð í kerfið á þeim tíma og útlán verða ekki skráð í kerfið; væntanlega gera söfnin sitt til að þetta valdi nemendum sem minnstum óþægindum. Hér má finna aðgerðaáætlun fyrir opnun kerfisins þar sem þetta millibilsástand er útskýrt betur.
Nú er fullbókað á kynningu nýja Gegnis sem haldin verður 30. apríl næstkomandi, og þökkum við þann áhuga sem menn sýna kerfinu. Gera má ráð fyrir að svona kynningar verði næst haldnar í sumar eða haust. Auk þess fá starfsmenn safna sem nota gamla Gegni og Feng væntanlega kennslu í vor og sumar.